| NÁTTÚRA | JARÐFRÆÐI | GRÓÐUR | FISKUR | FUGL | SPENDÝR | KORT OG MYNDIR | VEIÐILEYFI OG GISTING |

FRÉTTIR


Það er komið haust í Veiðivötnum, með næturfrosti, hrímuðum morgnum og haustlitum í gróðri. Þessir veiðimenn reyndu fyrir fisk í Kerlingarlögn í síðustu viku veiðitímans. Ljósmynd. Örn Óskarsson

20. ágúst 2014
Veiðivötn - lokatölur frá stangveiðitímanum
Miðvikudaginn 20. ágúst lauk stangveiði í Veiðivötnum og á föstudag tekur netaveiðitíminn við. Á netatímanum eru alltaf einhverjir sem kjósa að veiða frekar á stöng en í net og því munu einhverjir stangveiddir fiskar bætast við skráninguna síðar í haust.
Veiði í 9. viku gekk frekar brösulega hjá sumum, aðrir veiddu vel. Margir stórfiskar komu á land úr Grænavatni, Litlasjó og úr Hraunvötnum í vikunni. Alls veiddust 980 fiskar í 9. viku, 688 urriðar og 292 bleikjur.
Á veiðitímabilinu komu 16176 fiskar á land í Veiðivötnum, sem er 2660 fiskum meira en á síðasta ári. Mest veiddist af bleikju í Langavatni og Nýjavatni en samtals komu 6602 fiskar á land úr þessum tveimur vötnum, mest bleikja. Litlisjór var í þriðja sæti með 3023 urriða. Þessi þrjú vötn skera sig frá öðrum með yfir þrjúþúsund fiska hvert. Rúmlega þúsund fiskar komu á land í Snjóölduvatni, Skyggnisvatni og í Hraunvötnum. Önnur vötn voru með minna en fimmhundruð veidda fiska. Þyngsti fiskur sumarsins var 14,0 pd. urriði úr Grænavatni en sá næstþyngsti var 12,0 pund og kom hann úr Hraunvötnum. Mesta meðalþyngdin, 5,98 pd. var í Grænavatni.

Sjá nánar

MYNDIR AF VEIÐI OG VEIÐIMÖNNUM SUMARIÐ 2014

18. júní 2014
Opnun í Veiðivötnum

Veiði í Veiðivötnum hefst í dag kl. 15. Gistipláss er uppselt en nokkuð er enn til af veiðileyfum eftir 27. júlí án þess að gisting fylgi með.

Vegir á vatnasvæðinu eru mjög góðir en fara þarf varlega yfir kvíslarnar. Einkum er vaðið við Kvíslarvatn djúpt og varhugavert yfirferðar.

Hús og önnur gistiaðstaða er núna betri en nokkru sinni fyrr, rennandi vatn í öllum húsum og þau eru öll tengd rafmagni. Í hverju húsi eru 2 hellur, tenglar, ljós og rafmagnsofnar. Eins og áður þurfa gestir að hafa með sér potta, pönnur, hnífapör og annan borðbúnað. Vatnssalerni eru í öllum húsum nema í Dvergasteini. Mjög gott símasamband (3G) er víðast hvar á Veiðivatnasvæðinu. Eldsneyti er ekki selt í Veiðivötnum. Næsta eldsneytisstöð er í Hrauneyjum.

Veiðimenn eru hvattir til að ganga varlega um viðkvæma hálendisnáttúruna í Veiðivötnum. Varp margra fuglategunda er núna í fullum gangi og nýgræðingur og mosi sérlega viðkvæmur fyrir traðki. Minnt er á að allur akstur utan merktra slóða er bannaður.

Að gefnu tilefni vilja veiðiverðir í Veiðivötnum benda hundafólki á að passa vel uppá hunda sína á svæðinu.
Brögð eru að því að hundar þefi uppi beituleifar og öngla á vatnsbökkum. Slíkt hefur leitt til innvortis blæðinga og dauða.
Varp fugla er í hámark í lok júní og margar tegundir liggja á eggjum fram í miðjan júlí. Hundar eyðileggja varp fugla ekki síður en minkar og refir. Þetta á ekki hvað síst við um svæðið umhverfis Tjaldvatn og skálana en þar eru alltaf nokkur anda- og óðinshanahreiður. Hafið því hundana ávallt tjóðraða á svæðinu. Best er að skilja hundana eftir heima.

Sími í Veiðivötnum er: 864-9205


20. júní 2014
Vötn sunnan Tungnaár

Veiði í vötnum sunnan Tungnaár hófst 18. júní. Veiðileyfi eru seld í Landmannahelli og í Landmannalaugum. Dagurinn (kl. 7:00 - 23:00) kostar kr. 3000 á stöng. Ekki eru seldir hálfir dagar. Ekki þarf að panta veiðileyfi fyrirfram. Á svæðinu eru mörg góð veiðivötn svo sem Löðmundarvatn, Dómadalsvatn, Frostastaðavatn og Ljótipollur, en alls er veitt í 12 vötnum á svæðinu. Veiðileyfið gildir í þau öll. Hægt er að panta gistinu í Landmannahelli. Þar eru líka ágæt tjaldstæði.
Síminn í Landmannahelli er 893 8407.

Veiðitölur 2014


7. janúar 2014
Veiðivötn - 2014
Stangveiði í Veiðivötnum sumarið 2013 hefst miðvikudaginn 18. júní kl. 15 og lýkur miðvikudaginn 20. ágúst kl. 15.


Sími í Veiðivötnum er: 864-9205

Gjaldskrá á veiðileyfum og gistingu (hús, svefnpokapláss í skála, tjaldstæði og húsbílar/tjaldvagnar) í Veiðivötnum fyrir sumarið 2014.

Verð fyrir hverja stöng / dag - 18. júní - 1. júlí.

kr. 9.500-
Verð fyrir hverja stöng / dag - 1. júlí - 20. ágúst.
kr. 8.500-
5-7 manna hús / dag (lítil hús).
kr. 10.000-
8-12 manna hús / dag (stór hús).
kr. 13.000-
Litla herbergi í skálanum kr. 8.500-
Salur í skálanum (15-20 manna) / dag.
kr. 20.000-
Svefnpokapláss á loftinu í skálanum / mann / dag.
kr. 2.000-
Verð fyrir hvert tjald á tjaldstæði / dag.
kr. 2.500-
Verð fyrir gistingu í húsbíl og í tjaldvagni / dag.
kr. 2.500-

Um aðbúnað í veiðihúsum
Veiðiverðir í Veiðivötnum vilja koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum um húsin.
Í öllum húsunum í Veiðivötnum er:
Rafmagn, eldavélarhella, heitt og kalt vatn, rafljós og þilofnar.
Vatnssalerni eru í öllum húsum nema í Dvergasteini.

Gott farsímasamband (G3) er á öllu Veiðivatnasvæðinu. Þó er sumsstaðar lítið samband í djúpum gígholum. Farsímasendar eru uppi á Snjóöldufjallgarði og á Vatnsfelli.

.... ELDRI FRÉTTIR

 

VEIÐI Í VEIÐIVÖTNUM


MYNDIR AF VEIÐI OG VEIÐIMÖNNUM

 


Höfundur og umsjónarmaður: Örn Óskarsson / http://www.veidivotn.is/